Heimili heimskunnar…

Fólk getur verið svo vont

Posted in Uncategorized by liljakatrin on ágúst 19, 2010

Halló heimur!

Þetta morðmál í Hafnarfirði er hrikalegt og ég votta fjölskyldunni alla þá samúð sem ég á. Svona mál eru ekkert nema harmleikur en það er eins og alltaf á Íslandi að þegar svona mál koma upp fara kjaftasögurnar í gang.

Ég er yfirleitt spurð um hitt og þetta í sambandi við svona mál því ég er blaðamaður og á þá víst að frétta voðalega mikið. Ég fékk til dæmis spurningu um þetta mál í Hafnarfirði um daginn. Hún hljóðaði eitthvað á þessa leið: „Var þessi strákur ekki í dópi?“ Ég svaraði henni neitandi og sagðist aðeins hafa heyrt gott um þennan blessaða dreng sem nú er látinn.

Hvaða máli skiptir það hvort hann hafi neytt fíkniefna?! Skiptir líf hans þá engu máli? Maðurinn var drepinn með köldu blóði og ekkert réttlætir það. Mér finnst að fólk ætti alveg að slaka á á þessum kjaftasögum og vona að morðinginn finnist og verði dreginn til ábyrgðar fyrir þetta voðaverk.

Njótið vel og lengi!

-L

Veitingahúsagagnrýni: Fiskfélagið

Posted in Uncategorized by liljakatrin on ágúst 19, 2010

Halló heimur!

Það er ekki hægt að finna neitt að Fiskfélaginu. Ég hef borðað þar tvisvar og það er hrein fullkomnun.

Um daginn fór ég með nokkrum samstarfskonum á Fiskfélagið og nýttum við okkur hádegisverðartilboðið. Nokkrar fengu sér sushi sem var einstaklega girnilegt og gott og tvær fengu sér lax með poppi (já – poppkorn!). Sjálf fékk ég mér spínatsalat með djúpsteiktum humar og tígrisrækjum, svörtum ólífum, cherry tómötum og fullt, fullt, fullt af parmesan. Og ég meina fullt!

Á meðan við biðum eftir matnum fengum við sérlega brauðkörfu með þrenns konar áleggi í litum ítalska fánans. Mjög smart. Það besta í því var það hvíta sem er skyrsmjör. Ótrúlega ferskt og alveg magnað að ég hafi fílað það þar sem ég borða ekki smjör nema það sé hvítlaukur í því og brætt. Ég pantaði mér líka hvítvínsglas sem olli engum vonbrigðum.

Spínatsalatið er í einu orði sagt fullkomið. Rosalega vel útilátið og mismunandi hráefni léku við bragðlaukana á mér. Þjónustan á Fiskfélaginu er líka fyrsta flokks. Frábæra verðið í hádeginu skemmdi heldur ekkert fyrir. Umhverfið er dásamlegt og félagsskapurinn var hressandi. Ekkert hægt að setja út á þennan veitingastað. Hann fær fimm Ornellur í baði af fimm mögulegum.

Njótið vel og lengi!

-L