Heimili heimskunnar…

Ég ligg alltaf undir grun

Posted in mamma by liljakatrin on ágúst 24, 2010

Halló heimur!

Það hefur varla farið framhjá lesendum þessarar síðu að ég er á leiðinni til Svíþjóðar. Nú styttist óðar í ferðina og fljúgum við litla fjölskyldan til Stokkhólms eftir rétt rúmlega tvær vikur. Ég pantaði þessa ferð fyrir rúmum þremur mánuðum og er því næstum því að springa úr spenningi.

Vegna ferðarinnar þurfti ég að sækja um vegabréf fyrir sjö mánaða gamla dóttur mína. Mér finnst það reyndar frekar hlægilegt en skil af hverju þess er þörf. Reyndar pínulítið fáránlegt að hún verði með þetta vegabréf þangað til hún er rúmlega fimm ára en hvað um það. Ég fékk vegabréfið sent í síðustu viku en viti menn – nafn stúlkunnar minnar var vitlaust. Hún var Liljudóttir, ekki Hjaltadóttir. Einhvers staðar frá prestinum sem skírði hana til þjóðskrár hefur þetta mistekist og ég þurfti því að bruna upp á þjóðskrá og láta breyta þessu kviss bamm búmm. Þar var mér sagt að ég þyrfti að fá annað vegabréf fyrir hnátuna með réttu nafni.

Ég hringdi því í sýslumanninn í Kópavogi og þar var mér sagt að ég þyrfti að fylla út nýja umsókn og láta taka nýja mynd af gullinu mínu. Frábært! Það er nefnilega svo auðvelt að taka passamynd af ungabarni! Af hverju þarf allt ríkistengt að vera svona helvíti mikið vesen?

Í gær staulaðist ég með manni og barni til að sækja um annað vegabréf svo við kæmust til Svíþjóðar. Þarna stóð ég og beið, kappklædd, með hor í nös og sá rúmið mitt í hyllingum.

Þegar loksins kom að okkur fengum við sömu meðferð og maður fær alltaf hjá „hinu opinbera“. Maður liggur alltaf undir grun. Starfsmaðurinn spurði mig spjörunum úr og reyndi eins og hann gat að láta mig segja eitthvað vitlaust svo kæmist upp um stóra vegabréfasvindlið mitt. Ég hefði örugglega sótt um vegabréfið, breytt síðan nafninu hennar í þjóðskrá og komið síðan aftur til að fá frítt, nýtt vegabréf. Mouhahaha! Já – þvílíkt plan! Ég ætlaði sko að svindla sýslumann upp úr buxunum því það er svoooo gaman að fara til hans.

Það er greinilega engum treystandi þegar maður vinnur hjá ríkisstofnun sem er sorglegt. Einkum fyrir þá sem eru ekki með neina dulda svindláætlun í gangi, eins og ég.

Eftir langa yfirheyrslu fékk ég loksins blessaða vegabréfið, og það frítt, og þakka ég starfsmanni sýslumanns ævinlega fyrir það. Var búin að búa til reiðiræðu í hausnum á mér ef ég ætti að borga en ef ég þekki mig rétt hefði ég ekki getað staulað henni út úr mér heldur bara borgað, farið inn í bíl og bölvað sjálfri mér fyrir að vera svona mikið push-over.

Njótið vel og lengi!

-L

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: